Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 862  —  411. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um riðuveiki.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu oft hefur fé verið skorið vegna riðuveiki frá 1. janúar 2014? Hversu margir gripir voru skornir í hvert sinn, sbr. 8. gr. reglugerðar um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, nr. 651/2001?
     2.      Hversu mörg dýr voru sýkt og hversu mörg sýndu engin einkenni riðuveiki? Svar óskast sundurliðað eftir hverjum niðurskurði.
     3.      Hvernig voru arfgerðir príonpróteins í sætum 136, 154 og 171 í sýktum dýrum? Svar óskast sundurliðað eftir hverjum niðurskurði.
     4.      Hvernig voru arfgerðir príonpróteins í sætum 136, 154 og 171 í dýrum sem sýndu engin einkenni riðuveiki? Svar óskast sundurliðað eftir hverjum niðurskurði.
     5.      Voru arfgerðir príonpróteins í sætum 137, 138 og 151 skoðaðar í hverjum niðurskurði? Fannst breytileiki í þeim sætum?


    Ráðuneytið leitaði upplýsinga hjá Matvælastofnun vegna framangreindra spurninga. Allar niðurstöður byggja á greiningu heilasýna hjá riðurannsóknarstofu Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Neikvæð niðurstaða úr heilasýni tekur ekki af allan vafa um að viðkomandi kind hafi ekki verið smituð af riðupríonum. Hún sýnir einungis að sjúkdómurinn hafi ekki verið það langt genginn að príonin hafi verið komin upp í heila og farin að fjölga sér þar.
    Einkenni riðuveiki í lifandi kindum koma ekki fram fyrr en breytingar á heilavef af völdum afbrigðilegra príona eru orðnar töluvert miklar. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt fram á að fyrst eftir smit og á meðgöngutíma sjúkdómsins, sem er að meðaltali um þrjú ár en getur verið allt að fimm ár, finnast príonin fyrst og fremst í eitilvef og fjölga sér þar.
    Fram til þessa hafa sýni einungis verið tekin úr heilavef til rannsóknar á riðu en vegna nýrra rannsóknaniðurstaðna sem sýnt hafa fram á veru príona í eitilvef hefur verið tekin ákvörðun um að framvegis verði tekin sýni bæði úr heila- og eitilvef. Það var gert í fyrsta sinn við niðurskurðinn á Stórhóli sem fram fór 7. desember 2023.
    Í svari stofnunarinnar kemur fram að svörin eigi eingöngu við um klassíska riðu, ekki Nor98. Þá kemur fram að samsett arfgerð vísi í tákna/sæti 136 (A eða V), 154 (R eða H) og 171 (Q eða R) en auk þess var í sumum tilvikum greindur breytileiki í táknum/sætum 137 (M eða T), 138 (S eða N) og 151 (R eða C). Aukabreytileiki í táknum/sætum 137, 138 eða 151 greinist ávallt á ARQ-grunni. Ef enginn aukabreytileiki greinist bera þau sæti eftirfarandi amínósýrur: 137 MM; 138 SS; 151 RR.
    Í heildina hefur riða greinst á 20 bæjum frá árinu 2014. Hér á eftir má finna svör við öllum liðum fyrirspurnar þingmannsins, sundurliðuð eftir bæjum. Svörum er raðað eftir ártölum og bæjum og eru nýjustu tilfellin fyrst.
Árið 2023.
     Stórhóll.
     1.      Á Stórhóli voru 475 kindur skornar niður.
     2.      15 sláturhúsasýni bárust Keldum. Engin þeirra sýndu einkenni, eitt var sýkt. Fleiri sýni úr hjörðinni hafa ekki verið prófuð fyrir riðu (21.11.23).
     3.      Jákvæða index-sýnið bar arfgerðina ARQ/ARQ án aukabreytileika.
     4.      Í sæti 136 eru 77 AV, ein VV og afgangurinn AA. Í sæti 154 eru fimm arfhreinar HH og 81 arfblendin RH. Afgangurinn er RR. Í sæti 171 er engin arfhrein RR, 26 arfblendnar RQ og afgangurinn QQ.
     5.      Já, þeir voru skoðaðir. Það fundust níu einstaklingar með C151-arfblendið. Einn einstaklingur var með N138-arfblendið. Heildarfjöldi greininga var 557.

    Bergsstaðir.
     1.      Á Bergstöðum voru 690 kindur skornar niður.
     2.      52 dýr voru sýkt, þrjú þeirra með einkenni riðu, þar af tvö svokölluð index-sýni sem greindust fyrst út frá klínískum einkennum. Auk þess voru tvö sýni á mörkum jákvæðrar greiningar en teljast hér til neikvæðra sýna. Neikvæð sýni úr niðurskurði voru alls 617.
     3.      Öll 52 jákvæðu sýnin báru arfgerðina ARQ/ARQ án nokkurs aukabreytileika.
     4.      Meirihluti neikvæðra sýna var með ARQ/ARQ (506; 82.01%). 5.84% neikvæðra sýna voru með áhættuarfgerð; VRQ/ARQ (33; 5.35%) eða AHQ/VRQ (3; 0.49%). 12.15% neikvæðra sýna voru með arfgerð með minnkað næmi; AHQ/ARQ (74; 11.99%) eða AHQ/AHQ (1; 0.16%).
     5.      Aukabreytileiki greindist í 74 sýnum, öllum neikvæðum fyrir riðu. Sæti 137 (M>T): Alls níu sýni með M137/T137 (sjö ARQ/ARQ og tvö AHQ/ARQ). Sæti 138 (S>N): Alls 50 sýni með S138/N138 (45 ARQ/ARQ, þrjú AHQ/ARQ, tvö ARQ/VRQ) og tvö arfhrein N138/N138 (bæði ARQ/ARQ). Sæti 151 (R>C): Alls 13 sýni með R151/C151 (10 ARQ/ ARQ og þrjú AHQ/ARQ).

     Syðri-Urriðaá.
     1.      Á Syðri-Urriðaá voru 729 kindur skornar niður.
     2.      Eitt dýr var sýkt, án klínískra einkenna riðuveiki (tenging við Bergsstaði). 674 sýni úr hjörðinni voru neikvæð fyrir riðusmiti.
     3.      Eina jákvæða sýnið (index) bar arfgerðina ARQ/ARQ án nokkurs aukabreytileika.
     4.      Af neikvæðum sýnum voru 452, eða 67%, með arfgerðina ARQ/ARQ. Tæp 17% neikvæðra sýna báru áhættuarfgerð; ARQ/VRQ 92; 13.65%, AHQ/VRQ 17; 2.52% eða VRQ/VRQ 4; 0.59%. Um 16% neikvæðra sýna voru með arfgerð með minnkað næmi; AHQ/ARQ 104; 15.43% eða AHQ/AHQ 5; 0.74%.
     5.      Aukabreytileiki greindist í 31 sýni, öllum neikvæðum fyrir riðu. Sæti 137 (M>T): Alls sjö sýni með M137/T137 (öll ARQ/ARQ). Sæti 138 (S>N): Alls 23 sýni með S138/N138 (20 ARQ/ARQ, þrjú ARQ/VRQ). Sæti 151 (R>C): Eingöngu eitt sýni með R151/C151 (ARQ/ARQ).

Árið 2021.
     Sporður.
     1.      Enginn niðurskurður fór fram því að engin hjörð var eftir þar sem bóndinn var hættur sauðfjárrækt.
     2.      14 sláturhúsasýni bárust Keldum. Engin þeirra sýndu einkenni, eitt var sýkt.
     3.      Sýkta dýrið hafði arfgerðina ARQ/ARQ.
     4.      Ósýktu sýnin 13 voru ekki arfgerðagreind.
     5.      Enginn niðurskurður átti sér stað.

    Vatnshóll.
     1.      Á Vatnshóli voru 925 kindur skornar niður.
     2.      Í heild voru 916 dýr skimuð fyrir riðu. Eitt dýr hafði sýnt einkenni (index-sýnið) og því 915 dýr sem sýndu ekki einkenni. 17 dýr af heildinni voru sýkt.
     3.      Öll 17 sýktu dýrin höfðu arfgerðina ARQ/ARQ án aukabreytileika.
     4.      Arfgerðagreining var gerð á 746 niðurskurðarsýnum (169 lömb fædd 2020 voru ekki greind), af þeim voru 730 neikvæð fyrir riðu. Meirihluti neikvæðra sýna, 639; 87.53%, var með ARQ/ARQ en 14; 1.92% með VRQ/ARQ og 77; 10.55% með AHQ/ARQ.
     5.      Aukabreytileiki fannst í alls 257 sýnum (35% neikvæðra sýna), í sumum tilvikum fleiri en einn. Í flestum tilvikum, eða 216 sýnum, var um að ræða breytileika í tákna 138; N138 í stað S138. Í 49 sýnum fannst breytileiki í tákna 151; C151 í stað R151. Í tíu tilvikum (sýnum) var um báða breytileika að ræða (C151/N138).

     Syðra-Skörðugil.
     1.      Á Syðra-Skörðugili voru 562 kindur skornar niður.
     2.      37 dýr voru sýkt (jákvæð fyrir riðusmiti), þrjú með einkenni riðu; ein kind (index) greindist fyrst út frá einkennum en við niðurskurð sýndu tvær kindur í viðbót einkenni. 520 niðurskurðarsýni reyndust neikvæð fyrir riðusmiti.
     3.      24 sýkt dýr (þar af þrjú með einkenni) báru arfgerðina ARQ/ARQ (64.86%) en 13 VRQ/ ARQ (35.14%).
     4.      Af neikvæðum sýnum voru 443 með villigerðina ARQ/ARQ (85.19%). Samtals voru 33 sýni með áhættuarfgerð (6.35%) sem skiptist þannig: 25 með VRQ/ARQ (4.81%), þrjú með VRQ/VRQ (0.58%) og fimm með VRQ/AHQ (0.96%). 44 sýni voru með AHQ/ ARQ (8.46%).
     5.      Aukabreytileiki fannst í tveimur neikvæðum sýnum; C151/ARQ og C151/VRQ.

Árið 2020.
     Grófargil.
     1.      Á Grófargili voru 108 kindur skornar niður.
     2.      Fjögur dýr voru sýkt, þar af eitt með einkenni riðu sem greindist fyrst (index). 104 sýni úr niðurskurði voru neikvæð fyrir riðusmiti.
     3.      Öll fjögur jákvæðu sýnin báru arfgerðina ARQ/ARQ án nokkurs aukabreytileika.
     4.      Af neikvæðum sýnum bar helmingur, eða 52 sýni, villigerðina ARQ/ARQ. 39 sýni voru með áhættuarfgerð; 35 með VRQ/ARQ (33.65%) og fjögur með VRQ/VRQ (3.85%). 13 sýni voru með AHQ/ARQ (12.5%).
     5.      Aukabreytileiki fannst í 16 neikvæðum sýnum; 13 með N138 og þremur með C151. Arfgerðir voru eftirfarandi: Sex N138/ARQ; fjórar N138/VRQ; þrjár N138/AHQ; ein C151/AHQ og tvær C151/VRQ.
    Stóru-Akrar 1.
     1.      519 kindur og 222 sláturlömb voru skorin niður.
     2.      45 dýr voru sýkt, þar af eitt með einkenni sem greindist fyrst (index). 686 niðurskurðarsýni voru neikvæð fyrir riðusmiti. Arfgerðagreining var gerð á fullorðnu fé, alls 402 sýni.
     3.      Öll 45 jákvæðu sýnin báru arfgerðina ARQ/ARQ án nokkurs aukabreytileika.
     4.      Af 357 neikvæðum sýnum voru 324 með ARQ/ARQ (90.76%), 18 voru með VRQ/ARQ (5.04%), eitt var með VRQ/VRQ (0.28%) og 14 voru með AHQ/ARQ (3.92%).
     5.      Aukabreytileiki fannst í 17 neikvæðum sýnum; 16 með N138, þar af 15 N138/ARQ og eitt N138/VRQ, og eitt með C151/ARQ.

    Syðri-Hofdalir.
     1.      671 kindur voru skornar niður.
     2.      Eitt dýr var sýkt, án einkenna (tenging við Stóru-Akra). 657 niðurskurðarsýni voru neikvæð fyrir riðusmiti, þar af voru í 83 þeirra eitlasýni prófuð auk heilasýna.
     3.      Jákvæða sýnið bar arfgerðina ARQ/ARQ, án aukabreytileika.
     4.      Af 657 neikvæðum sýnum voru 560 með ARQ/ARQ (85.24%), 50 með VRQ/ARQ (7.61%), eitt með VRQ/VRQ (0.15%), eitt með VRQ/AHQ (0.15%), 44 með AHQ/ARQ (6.70%) og eitt með AHQ/AHQ (0.15%).
     5.      Aukabreytileiki var ekki skoðaður í neikvæðum sýnum.

     Grænamýri.
     1.      885 kindur, 53 geitur og 79 sláturlömb voru skorin niður.
     2.      Eitt dýr var sýkt, án einkenna (tenging við Stóru-Akra). 910 niðurskurðarsýni voru neikvæð fyrir riðusmiti, þar af var 31 sýni úr geitum.
     3.      Jákvæða sýnið bar arfgerðina ARQ/ARQ, án aukabreytileika.
     4.      Af 877 neikvæðum sýnum voru 732 með ARQ/ARQ (83.47%), 35 með VRQ/ARQ (3.99%), fimm með VRQ/AHQ (0.57%), 102 með AHQ/ARQ (11.63%) og þrjú með AHQ/AHQ (0.34%).
     5.      Aukabreytileiki var ekki skoðaður í neikvæðum sýnum.

     Hof.
     1.      13 kindur voru skornar niður.
     2.      Eitt dýr var sýkt, án einkenna (tenging við Stóru-Akra). 19 sýni þar sem tekin voru eitlasýni auk heilasýnis voru öll neikvæð.
     3.      Jákvæða sýnið bar arfgerðina ARQ/ARQ, án aukabreytileika.
     4.      Arfgerðir 19 neikvæðra sýna voru: Níu ARQ/ARQ, átta VRQ/ARQ, ein VRQ/VRQ og ein AHQ/ARQ.
     5.      Aukabreytileiki var ekki skoðaður í neikvæðum sýnum.

     Minni-Akrar.
     1.      100 kindur voru skornar niður.
     2.      Eitt dýr var sýkt, án einkenna (eitt af 127 sýnum teknum í sláturhúsi). Nágrannabær við Stóru-Akra. 100 niðurskurðarsýni voru neikvæð fyrir riðusmiti.
     3.      Jákvæða sýnið bar arfgerðina ARQ/ARQ, án aukabreytileika.
     4.      Arfgerðir 100 neikvæðra sýna úr niðurskurði voru: 85 ARQ/ARQ, ein VRQ/ARQ, 14 AHQ/ARQ.
     5.      Aukabreytileiki var ekki skoðaður í neikvæðum sýnum.
Árið 2019.
     Álftagerði.
     1.      356 kindur voru skornar niður.
     2.      21 sýkt dýr, þrjú þeirra með einkenni, þar af tvö sem greindust fyrst (index). Neikvæð sýni úr niðurskurði voru alls 333.
     3.      19 jákvæð sýni voru ARQ/ARQ og tvö VRQ/ARQ, öll án aukabreytileika.
     4.      Arfgerðir 333 neikvæðra sýna: 251 ARQ/ARQ (75.38%), 18 VRQ/ARQ (5.41%), fjórar VRQ/AHQ (1.20%), 56 AHQ/ARQ (16.82%) og fjórar AHQ/AHQ (1.20%).
     5.      Aukabreytileiki fannst í fjórum neikvæðum sýnum: N138/ARQ.

Árið 2018.
     Vallanes.
     1.      369 kindur og 424 lömb voru skorin niður.
     2.      13 dýr voru sýkt, öll án einkenna, þar með talið index-sýnið sem var sláturhúsasýni.
     3.      10 jákvæð sýni voru ARQ/ARQ og þrjú VRQ/ARQ. 12 sýnanna voru án alls aukabreytileika (eitt sýni án niðurstaðna fyrir sæti 138 og 151).
     4.      Arfgerðir 312 neikvæðra sýna úr niðurskurði: 224 ARQ/ARQ, 18 VRQ/ARQ, ein VRQ/ VRQ, fjórar VRQ/AHQ, 60 AHQ/ARQ, fimm AHQ/AHQ (17 neikvæð sýni voru ótæk í arfgerðagreiningu).
     5.      Aukabreytileiki fannst í 21 neikvæðu sýni: Sjö með N138/ARQ, eitt með N138/VRQ, eitt með N138/AHQ, 10 með C151/ARQ og tvö með C151/AHQ.

Árið 2017.
     Urðir.
     1.      104 kindur voru skornar niður.
     2.      Níu dýr voru sýkt, öll án einkenna, þar með talið index-sýnið sem var sláturhúsasýni.
     3.      Fimm jákvæð sýni voru ARQ/ARQ, þar af voru tvö með N138 (N138/ARQ). Þrjú voru VRQ/ARQ, þar af voru tvö með N138 (N138/VRQ). Eitt jákvætt sýni var með AHQ/ ARQ, annað jákvæða sýnið sem greinist með H154-breytileikann.
     4.      Arfgerðir 99 neikvæðra sýna úr niðurskurði: 77 ARQ/ARQ, 12 VRQ/ARQ, þrjár VRQ/ AHQ, sjö AHQ/ARQ.
     5.      Aukabreytileiki fannst í fjórum jákvæðum sýnum (sjá svar við 2. tölul. fyrirspurnar) og 27 neikvæðum sýnum: Tvö með N138/N138, 16 með N138/ARQ, eitt með N138/AHQ, eitt með N138/C151, sex með C151/ARQ og eitt með C151/VRQ.

Árið 2016.
     Brautarholt.
     6.      659 kindur voru skornar niður.
     7.      Fimm dýr voru sýkt, eitt með einkenni (index) og fjögur einkennalaus úr niðurskurði (59 niðurskurðarsýni prófuð af alls 290 fullorðnu fé).
     8.      Öll fimm jákvæðu sýnin voru með ARQ/ARQ, án aukabreytileika.
     9.      Arfgerðir 58 neikvæðra sýna (eingöngu með tilliti til sæta 136 og 154): 49 AR/AR, níu VR/AR.
     10.      Aukabreytileiki var ekki skoðaður í neikvæðum sýnum.
     Stóra-Gröf ytri.
     1.      665 kindur voru skornar niður.
     2.      Sex dýr voru sýkt, tvö með einkenni, þar af index-sýnið sem greindist fyrst, og fjögur einkennalaus úr niðurskurði (alls 296 niðurskurðarsýni prófuð).
     3.      Fjögur jákvæð sýni með ARQ/ARQ (án aukabreytileika), þar af eitt dýr með einkenni (index). Tvö jákvæð sýni voru með VRQ/ARQ, þar af seinni kindin sem greindist með einkenni.
     4.      Arfgerðir 292 neikvæðra sýna úr niðurskurði (eingöngu með tilliti til sæta 136 og 154): 220 AR/AR, 35 VR/AR, ein VR/VR, fjórar VR/AH, 32 AH/AR.
     5.      Aukabreytileiki var ekki skoðaður í neikvæðum sýnum en í fimm af sex jákvæðum. Enginn aukabreytileiki fannst.

Árið 2015.
     Valagerði.
     1.      253 kindur voru skornar niður.
     2.      14 dýr voru sýkt, þar af þrjú með einkenni (öll index-sýni) og 11 einkennalaus úr niðurskurði (alls 43 niðurskurðarsýni prófuð af um 300 kindum).
     3.      13 jákvæð sýni báru arfgerðina VRQ/ARQ, þar af öll þrjú index-sýnin. Eitt sýni var ARQ/ARQ.
     4.      Arfgerðir neikvæðra sýna (eingöngu með tilliti til sæta 136 og 154): 16 AR/AR, 10 VR/ AR, tvær VR/AH, fimm AH/AR.
     5.      Aukabreytileiki fannst ekki í jákvæðum sýnum (13 af 14 sýnum skoðuð) en aukabreytileiki var ekki skoðaður í neikvæðum sýnum.

     Víðiholt.
     1.      Á Víðiholti voru 280 kindur skornar niður.
     2.      10 dýr voru sýkt, þar af tvö með einkenni (bæði index-sýni) og átta einkennalaus úr niðurskurði (alls 43 niðurskurðarsýni prófuð af um 300 kindum).
     3.      Fimm jákvæð sýni báru arfgerðina VRQ/ARQ, þar af bæði index-sýnin. Fimm jákvæð sýni voru ARQ/ARQ.
     4.      Arfgerðir neikvæðra sýna (eingöngu með tilliti til sæta 136 og 154): 23 AR/AR, tvær VR/AR, 10 AH/AR.
     5.      Öll jákvæð sýni voru án aukabreytileika en hann var ekki skoðaður í neikvæðum sýnum.

Árið 2014.
    Neðra-Vatnshorn.
     1.      Á Neðra-Vatnshorni voru 476 kindur skornar niður.
     2.      Sjö dýr voru sýkt, öll einkennalaus, þar af tvö sláturhúsasýni sem greindust fyrst (bæði index-sýni). Auk þess greindust fimm sýni úr niðurskurði (alls 26 niðurskurðarsýni prófuð af um 500 kindum). Eitt sláturhúsasýni var á mörkum jákvæðrar greiningar (ekki staðfest).
     3.      Öll sjö jákvæðu sýnin báru arfgerðina ARQ/ARQ (án aukabreytileika) og einnig það sem var á mörkum jákvæðrar greiningar.
     4.      Arfgerðir neikvæðra sýna (eingöngu með tilliti til sæta 136 og 154): 19 AR/AR, þrjár VR/AR.
     5.      Aukabreytileiki var ekki skoðaður í neikvæðum sýnum.